Það er snjallt að hugleiða hvaða aðstæður séu líklega varasamastar. Skrifa upp áætlun um hvað þú ætlar að gera í staðinn fyrir að reykja eða taka í vörina/nefið.
Flest lenda í þeirri stöðu að freistingin til að fá sér tóbak er meiri en vanalega. Mikilvægt er að átta sig vel á hvar hættusvæðin eru og búa sig vel undir hremmingarnar. Gott er að fá hjálp annarra til að finna ráð við slíkum freistingum.
Hægt er að fá meðferð og stuðning við að hætta tóbaksnotkun á netspjalli hér á síðunni og í síma 5131700.
Hér á eftir eru nefndar nokkrar algengar hættur og tillögur um varnir gegn þeim.
Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjá hvernig staðan er hjá þér.
Mörgum finnst þau slaka á ef þau fá sér tóbak þegar þau eru spennt á taugum, kvíðin eða reið. Þetta skýrist aðallega af því að fólk þaggar þar með niður í fráhvarfseinkennunum. Nikótín er þó, líkt og koffín, örvandi efni sem gerir fólk dugmeira andlega og líkamlega og eykur þar með á taugaóstyrk, kvíða og reiði. Árangursríkara er að setja í gang andstætt ferli, sem sagt slökun. Slökunartækni af ýmsu tagi er afar áhrifarík gegn kvíða og henni er hægt að beita mjög fljótt og án þess að mikið beri á, hvar og hvenær sem er þegar fólk hefur æft sig í henni. Önnur aðferð er að dreifa huganum. Þá er til dæmis hægt að fara í gönguferð, lesa blöðin eða spila spil.
Hjá mörgum hefur tóbakið verið vinur sem þau leita til þegar þau eru niðurdregin eða þeim leiðist. Þar sem tóbak er að auki örvandi getur fólk verið dálítið þungt í skapi fyrst eftir að það hættir. Hreyfing og félagslíf hjálpa oft. Önnur aðferð er að dreifa huganum. Til dæmis fara út að ganga, lesa blöðin, spila spil eða spjalla við aðra. Ef þú ert langt niðri andlega í töluverðan tíma, getur borgað sig að ræða við heimilislækninn sem getur þá vísað þér áfram ef þörf er á. Núvitund hefur líka hjálpað mörgum.
Nikótín er örvandi og mörgum finnst það þess vegna bæta einbeitinguna. Það eru hins vegar til margar aðrar og hollari aðferðir til að gera það sama, til dæmis líkamsþjálfun, hollt og reglulegt mataræði og streitumeðferð. Mörg finna að einbeitingin verður sérlega slæm þegar þau hætta að nota tóbak. Þetta stafar af fráhvarfseinkennunum og lagast fljótlega. Þangað til geturðu prófað að skipuleggja hlutina aðeins betur en vanalega, til dæmis:
- Skrifa minnismiða
- Drekka mikið vatn
- Reyna að forðast það sem dreifir athyglinni (til dæmis hljóð og hreyfingar, eða óleyst áhyggjuefni) þegar þú þarft að einbeita þér.
- Taka þér hlé og stund fyrir sjálfan þig - draga djúpt andann með maganum og reyna að slaka alveg á, aðallega í háls- og axlarvöðvum.
Reyna um leið að gleyma þér alveg og stara bara út í bláinn svo að heilinn fái líka hvíld.
„Nú á ég skilið að fá mér tóbak,“ segja mörg sem nota tóbak. Finnst þér þú eiga eitthvað fleira skilið? Að halda upp á eitthvað er oft að veita sér viðurkenningu. Hvernig væri að þú veittir þér verðlaun fyrir að vera tóbakslaus næst þegar þú heldur upp á eitthvað? Þetta gæti til dæmis verið ferðalag, ný flík, dekurstund eða góð bók.
Það getur verið erfitt að standast freistinguna að fá sér sígarettu eða munntóbak/neftóbak þegar maður hefur drukkið áfengi. Þess vegna getur verið snjallt að takmarka drykkjuna þegar tóbakið er tiltækt. Það er líka snjallt að búa sig undir slíkt fyrirfram og upphugsa ráð ef tóbakslöngunin skyldi verða sterk. Til dæmis að fara út að ganga eða spjalla við einhvern sem styður þig. Það hefur einnig reynst mörgum vel að hafa alltaf vatnsglas við hendina þegar áfengis er neytt og eitthvað til að maula á, til dæmis saltstangir. Það er mikilvægt að hafa staðgengla fyrir tóbakið.
Það getur reynt mikið á þau sem eru nýhætt að nota tóbak að vera innan um aðra sem það gera. Þess vegna er snjallt að búa sig andlega undir slíka fundi. Það er til dæmis hægt að undirbúa svör ef einhver býður manni tóbak eða hafa eitthvað í vasanum að fitla við.
Ef þú finnur til tóbaksþarfar eftir matinn er ráðlagt að standa upp frá borðum þegar þú er búin að borða og gera eitthvað til að dreifa huganum. Mörgum gagnast vel að bursta tennur eða tyggja tyggigúmmí strax eftir matinn. Minna sig á að tóbakið gerir ekki matinn betri heldur slævir það bragðlaukana, sérstaklega sígaretturnar.
Ef þú finnur til tóbakslöngunar þegar þú drekkur kaffi eða te getur verið snjallt að drekka eitthvað annað fyrst eftir að þú hættir að nota tóbak. Koffín eykur oft tóbakslöngun. Svo er hægt að prófa að hafa eitthvað annað tiltækt með kaffinu eða teinu þegar þörfin gerir vart við sig, til dæmis ávöxt eða vatn. Mörgum finnst gott að bursta tennur eða tyggja tyggigúmmí strax eftir að hafa drukkið kaffi eða te. Minna sig á að tóbakið gerir kaffi- eða tebollann ekki betri heldur slævir það þvert á móti bragðlaukana.