Tóbaksvarnir hefjast heima. Viðhorf og hegðun foreldra er ein mikilvægasta forvörnin gegn áhættuhegðun unglinga.
Hugrekki er eiginleiki sem styrkir einstaklinginn í því að taka ábyrgð á eigin lífi. Börn þurfa að fá tækifæri til að þróa með sér hugrekki. Foreldrar eru hvattir til að styrkja hugrekki barna sinna með því að fela þeim krefjandi verkefni við hæfi.
Tóbakslaust umhverfi barna
Foreldrar og forráðamenn ættu ávallt að fara fram á reyklaust umhverfi fyrir börnin sín. Hvort sem það er í tengslum við skóla, dagvistun, veitingastaði, vinnustaði og jafnvel heimili ættingja og vina. Ástæður til að forðast tóbaksreyk eru margvíslegar. Í óbeinum reyk eru fleiri en 250 skaðleg efni og um 50 þeirra eru krabbameinsvaldandi (þ.á.m. ammóníak og blásýra). Óbeinar reykingar eru sérstaklega hættulegar fyrir börn og auka hættuna á andarteppu, eyrnabólgu, lungnakvefi og lungnabólgu. Það skiptir því sköpum að gera umhverfið reyklaust, sérstaklega þar sem börn eru tíðir gestir.
Draga má úr líkum á að ungt fólk byrji að nota tóbak með því að:
- Hafa skýrar reglur og viðurlög varðandi tóbaksnotkun. Þessi þáttur vegur einna þyngst til að skýra af hverju ungt fólk byrji ekki að nota tóbak.
- Ungt fólk þarf að vita raunverulega útbreiðslu tóbaksnotkunar meðal ungmenna. Jafnt og þétt hefur dregið úr reykingum og nú er svo komið að 2% af 10. bekkingum reykir daglega. Einnig hefur dregið úr munntóbaksnotkun en rafrettunotkun eykst bæði meðal efstu bekkja grunnskóla og nema í framhaldsskólum.
- Lestu þér til um rafsígarettur og ræddu við barnið þitt um hvað þar er á ferðinni.
- Segja frá skammtíma áhrifum tóbaksnotkunar, svo sem andfýlu, minna þol, lykt af fötum og meiri hættu að fá bólur og gular tennur.
- Leggja áherslu á að hætt sé við því að verða háður nikótíninu í tóbakinu á nokkrum dögum eftir fyrstu notkun.
Hægt er að fá meðferð og stuðning við að hætta tóbaksnotkun á netspjalli hér á síðunni og í síma 5131700.
Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Hér getur þú tekið prófið, séð hver staðan er og hvernig þú getur bætt þig.
Ljósmóðir veitir ráðgjöf í síma 513-1700 og á netspjalli Heilsuveru alla virka daga frá 12 til 14.