Fara á efnissvæði

Skaðsemi tóbaks

Kaflar
Útgáfudagur

Tóbaksnotkun hvort sem er reykingar, óbeinar reykingar eða reyklaust tóbak er einn helsti áhættuþáttur fjölmargra alvarlegra sjúkdóma.

Hægt er að fá meðferð og stuðning við að hætta tóbaksnotkun á netspjalli hér á síðunni og í síma 5131700. 

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.

Smelltu hér til að meta heilsuhegðun þína

Hjarta- og æðasjúkdómar

Þau sem reykja 20 sígarettur á dag þrefalda hættuna á að fá hjarta- og æðasjúkdóma.

Þó að ekki séu reyktar nema 1-4 sígarettur á dag er hættan á að fá hjartasjúkdóma helmingi meiri en hjá þeim sem reykir ekki.

Hjarta- og æðasjúkdómar hljótast af því að það dregur úr eða tregða verður á aðstreymi blóðs og súrefnis. Reykingar, hár blóðþrýstingur og of mikið kólesteról eru þau atriði sem mest auka hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.

Krabbamein

Í tóbaksreyk eru að minnsta kosti 70 efni í sígarettum sem geta valdið krabbameini, þeirra á meðal nítrósamín. Þessi efni geta valdið varanlegum breytingum á erfðaefninu í frumunum. Smám saman geta frumurnar misst stjórn á eigin vexti svo að þær fara að skipta sér hömlulaust. Þá vaxa þær inn í nærliggjandi vefi og þrengja að þeim. Krabbameinsfrumurnar geta líka dreift sér út í líkamann með blóðrásinni og eftir eitlakerfinu.

Reykingamaðurinn er í helmingi meiri hættu á að deyja úr krabbameini en sá sem reykir ekki. Stórreykingamaður er í fjórfaldri hættu. Að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er tóbaksnotkun einn helsti áhættuþáttur krabbameins og á sök á 22% allra krabbameinsdauðsfalla í heiminum og 71% dauðsfalla vegna lungnakrabbameins.

 

Sjúkdómar í öndunarfærum

Í tóbaksreyk eru efni sem brjóta niður frumurnar í lungnablöðrunum og eyðileggja þar með lungun.

Sá sem reykir daglega verður smám saman að venjast morgunhósta og slími. Óhjákvæmilegt er að andardrátturinn þyngist við líkamsáreynslu og árangurinn á íþróttavellinum versnar.

Reykurinn eyðileggur bifhárin
Í berkjunum verður til slím sem tekur við óhreinindum sem berast niður í lungun. Örsmá bifhár þekja slímhúð berkjanna að innan og sjá um að flytja slímið upp úr lungunum. Við reykingar lamast bifhárin. Þess vegna þjást reykingamenn oft af hósta, meiri slímmyndun, kvefi og öndunarfærasýkingum á borð við bráða berkjubólgu og lungnabólgu. Þegar fram í sækir eyðileggjast bifhárin alveg.

Í tóbaksreyknum eru einnig efni sem brjóta niður frumurnar í lungnablöðrunum og eyðileggja þar með lungun.

Sýkingar verða algengari
Sýkingar í efri og neðri hluta öndunarfæranna, t.d. hálsbólga, bráð berkjubólga og lungnabólga, eru tíðari meðal reykingamanna en þeirra sem reykja ekki. Börnum, sem þurfa mikið að anda að sér reyk, er sömuleiðis mun hættara við að fá slíka sjúkdóma og þau fá einnig eyrnabólgu oftar en önnur börn.

Astmi
Ef þú ert með astma og reykir versnar astminn smám saman og miklar líkur eru á að það endi með lungnaþembu. Ef reykingum er hætt dregur oftast úr astmaköstunum. Börn, sem alast upp á reykingaheimili, eiga frekar á hættu að fá astma.

Meira en 90% lungnaþembusjúklinga reykja daglega eða hafa gert það. 15% þeirra sem reykja 20 sígarettur á dag og 25% þeirra sem reykja 40 sígarettur á dag munu fá lungnaþembu.

Sykursýki 2

Reykingar auka hættuna á að fólk fái sykursýki af gerð 2. Meðal reykingamanna, sem snúa sér að munntóbaki, verður hættan enn meiri samkvæmt sænskri rannsókn.

Yngra fólk greinist með sykursýki 2
Flestir sem fá sykursýki 2 eru orðnir fertugir og tíðnin eykst mjög með aldri. En æ yngra fólk fær þennan sjúkdóm.

Árið 2006 var unnin rannsókn á vegum Decode en þar kom fram að um 5.000 einstaklingar voru greindir með sykursýki af gerð 2 hér á landi. Talið er að fyrir hvern þann sem greindur er með sykursýki 2 séu 2-3 einstaklingar með sjúkdóminn ógreindan.

Sykursýki af gerð 2 er alvarlegur sjúkdómur sem á sinn þátt í að fólk fær aðra sjúkdóma í ofanálag, þar á meðal hjarta- og æðasjúkdóma. Tóbaksnotkun eykur enn frekar hættuna á slíkum sjúkdómum. Sykursýki 2 á líka þátt í heilablóðfalli, nýrnabilun, blindu, fótasárum og aflimunum.

Kynlíf og frjósemi

Getuleysi karla
Karlmenn, sem nota tóbak, eiga á hættu að verða getulausir er fram líða stundir. Skýringin er sú að getnaðarlimurinn fær ekki nóg blóð.

Góð blóðrás er skilyrði þess að körlum rísi hold. Tóbaksnotkun veiklar blóðrásina því að nikótínið veldur því að blóðæðarnar dragast saman.

Frjósemi
Konur sem nota tóbak eiga verra með að verða barnshafandi en þær sem nota það ekki. Skýringin er sú að nikótínið hefur áhrif á hormónaframleiðslu kvenna og einnig torveldar færslu eggsins niður eggjaleiðarann. Frjósemin getur minnkað töluvert.

Karlmenn sem nota tóbak reynast með lélegra sæði en hinir sem nota ekki tóbak. Tóbaksnotkun dregur úr getunni til að frjóvga eggið vegna þess að skaðleg efni í tóbakinu valda því að sáðfrumurnar hreyfa sig hægar en ella. Þetta lagast hins vegar fljótlega eftir að menn hætta tóbaksnotkun.

Munnur, lykt og bragð

Tennur og munnhol
Tóbaksnotkun veldur því að tennur verða mislitar og jafnframt verður hættan á að fá tannholdssjúkdóma allt að sex sinnum meiri en hjá þeim sem nota ekki tóbak.

Tennur litast mun meira af tóbaksnotkun en kaffi- eða tedrykkju. Hættan á tannholdssjúkdómum og tannlosi er þrefalt meiri hjá tóbaksneytendum en þeim sem nota ekki tóbak.

Sýrustig og gerlagróður breytist í munni þeirra sem nota tóbak og það eykur á hættuna á tannskemmdum meðal þeirra.

Bragð og lykt
Tóbaksnotkun veldur einnig andremmu og dregur úr lyktar- og bragðskyni. Sá sem hættir að nota tóbak tekur eftir að lyktar- og bragðskynið kemur tiltölulega fljótt aftur. Það þýðir meðal annars að fólk þarf ekki eins mikið salt og fitu í matinn til að hann bragðist eins vel.

Áhrif á útlitið

Húðin
Nikótín dregur úr blóð- og súrefnisstreymi til húðarinnar. Því myndast hrukkur miklu fyrr hjá fólki sem notar tóbak. Auk þess minnkar teygjanleikinn í húðinni og hún fer að slappast og síga fyrr en hún gerði annars. 

Hárvöxtur
Óæskilegur hárvöxtur er 50% algengari hjá konum sem nota tóbak en hinum sem nota það ekki.

Konur og reykingar

Konum er sérlega hætt við heilsutjóni af völdum reykinga. Í Noregi voru konur með lungnakrabba til að mynda fimmfalt fleiri árið 2007 en þær voru 50 árum áður.

Margt bendir til að konur þurfi færri sígarettur og styttri tíma en karlar til að skemma í sér lungun. Dauðsföll vegna lungnakrabba eru nú fleiri meðal kvenna yngri en 50 ára en meðal karla á sama aldri í Noregi.

  • Nú orðið deyja fleiri konur fyrir sjötugt úr lungnakrabba en brjóstakrabba í Noregi.
  • Konum sem reykja er 30% hættara við að fá brjóstakrabbamein en þeim sem reykja ekki.
  • Hættan á leghálskrabbameini er allt að fimm sinnum meiri hjá reykingakonum heldur en hjá konum sem reykja ekki.
  • Hættan á kransæðastíflu fimmfaldast þegar konur reykja mikið. Meðal kvenna sem reykja 14 sígarettur á dag hefur hættan þegar tvöfaldast.
  • Fjórar konur af fimm sem fá kransæðastíflu fyrir fimmtugt reykja.
  • Reykingar kvenna á barneignaaldri hafa áhrif á niðurbrot estrógens. Þetta þýðir meðal annars að það dregur úr náttúrulegum vörnum þeirra gegn hjarta- og æðasjúkdómum.
  • Konur sem reykja fara fyrr á breytingaaldurinn en þær sem reykja ekki.
  • Reykingar geta leitt til breytinga á tíðablæðingum og aukið hættuna á túrverkjum og óreglulegum blæðingum.
  • Eftir breytingaaldurinn er reykingakonum hættara við beinþynningu og beinbrotum en konum sem reykja ekki.
  • Reykingar eiga sök á 30% allra þvaglekatilfella.
  • Rannsóknir benda til að reykingakonur fái oftar verki í vöðva og bein en þær sem reykja ekki.
Verkir í stoðkerfi

Konur sem reykja fá oftar verki í vöðva og bein en þær sem reykja ekki. Reykingar kvenna á barneignaaldri hafa áhrif á niðurbrot estrógens. Það eykur hættuna á beinþynningu. Eftir breytingaaldurinn er konum sem reykja hættara við beinbrotum en konum sem reykja ekki. Konur sem reykja komast þar að auki fyrr á breytingaaldurinn en þær hefðu gert ef þær hefðu ekki reykt.

Beinþynning þróast hægt og hægt. Það bætir að vísu ekki þéttleika eða kalkinnihald beinanna að hætta að reykja en það hjálpar til að draga úr frekara tapi á beinmassa. Sýnt hefur verið fram á að ef konur hætta að reykja áður en breytingaaldri er náð getur það dregið úr hættu á broti á lærlegg um 25%.

Sömuleiðis hefur komið í ljós að ef fólk hættir að reykja dregur það úr verkjum út af liðagigt.